Blog, CLT einingar, Einingahús, Límtré

Að byggja hús úr CL T krosslímdum timbur einingum

CLT einingar, CLT hús, CLT einingahús

Sjá lið í vöruskrá BK Hönnunar um CLT einingar

CLT einingar er eitt umhverfisvænasta byggingefni sem völ er á um þessar mundir. CLT einingar hafa rutt sér rúms á íslenskum byggingamarkaði og eru nú nokkrir endur söluaðilar að bjóða upp á slíkar einingar. CLT einingar eru rómaðar fyrir lítið kolefnis fótspor, mikinn styrk miðað við þyngd, hraða og einfaldleika við uppsetningu. Þegar þessi kostir eru lagðir saman er ljóst að CLT einingar eru mjög aðlaðandi byggingaraðferð fyrir marga húsbyggjendur.

Þó að CLT einingar séu til þess að gera nýjar af nálinni á þessi tækni sér langan aðdraganda. Hana má að einhverju leiti reka til þýsks byggingakerfis sem nefnist ”Brettstapel” eða “Dowllam” á ensku, DLT. Líkt og í DLT kerfinu þá er hugmyndafræðin að stafla timbur fjölum saman í massa og mynda þannig stóra fleka. DLT einingarnar eru hins vegar í eðli sínu mun líkari límtrés bitum en krosslímdu CLT einingarnar. DLT kerfið var þróað á fyrri hluta tíunda áratugarins og er enn nokkuð útbreitt í Þýskalandi og Austurríki.

Megin munurinn á krosslímdu CLT einingunum og Brettstapel DLT einingunum er að í CLT einingum eru notaðar fjalir sem staflað er þvert á hverja aðra, þ.e. þær eru límdar saman í kross. Með því verður til mun eining sem er sterkari þegar litið er til hreyfinga bæði lárétt og lóðrétt. CLT einingar eru minnst með þrem lögum af timbur fjölum sem oftast eru úr þurrkuðu greni eða furu og hvert lag er límt saman við það næsta við 90° horn með polyurethan lími.

Þegar flekarnir eru límdir saman eru þeir jafnframt pressaðir saman í stórum vökvapressum. Þannig verða til einingar sem eru í nákvæmum stærðum sem geta í sumum tilfellum verið allt að 3,5 x 20 m að stærð. Á íslenskum markaði er þó algengast að einingar séu að hámarki 3 x 13,6 m.

CLT einingar fást í þrem mismunandi gæðaflokkum hjá flestum framleiðendum. Þeir nefnast “non-visual”, “industrial visual” og “high-grade visual”. Þessir flokkar eru allir mismunandi að gæðum og ætlaðir í mismunandi lausnir. Non visual gæði eru ætluð í veggi sem á að klæða af, t.d með gifsplötum. Industrial visual og high grade visual eru fínni yfirborð sem eru alla jafnan höfð sýnileg.

Hverjir eru helstu kostir CLT eininga?

Það eru nokkrir kostir sem gera CLT einingar mjög gott byggingarefni. Helst ber að nefna nákvæmnina sem nær alla leið frá teikniborði hönnuða inn í verksmiðjurnar og niður á verksmiðjugólfið í CNC vélarnar. Með réttum vinnubrögðum er hægt að ná ótrúlegri nákvæmni í þessu ferli. Einingar eru framleiddar af mikilli nákvæmni eftir teikningum hönnuða, allt er teiknað upp í þrívíðum tölvu módelum sem gera árekstraprófun og samkeyrslu einfalda. Einingarnar eru því framleiddar nákvæmlega eins og þær eru hannaðar og þeim skilað þannig á byggingastað. Þetta gerir allan eftirleik á framkvæmdatímanum mun einfaldari en t.d með staðsteyptum mannvirkjum. Óhætt er að panta glugga, gler, innihurðir ofl. Um leið og CLT einingar eru pantaðar.

Framkvæmdahraði með CLT einingum er mikill. Það er bæði fljótlegt og snyrtilegt að byggja hús úr CLT einingum. Einingarnar eru einfaldar í samsetningu á byggingarstað. Sem dæmi ná nefna að áætlanir gera ráð fyrir að reisning á fjögurra herbergja einbýlishúsi á tveimur hæðum taki um 5-7 daga. Hraðinn sem fæst með því að nota CLT einingar er því þónokkur. Það getur því verið mikill kostur fyrir einstaklinga sem eru að byggja að nota CLT einingar, enda hægt að ná fyrr því markmiði að koma upp fokheldu húsi sem þýðir að fjármögnunarkostnaður getur verið lægri en með því að staðsteypa hús.

CLT einingar geta einnig verið mjög fallegar séu þær hafðar sýnilegar að innanverðu í húsum. Með því má ná nútímalegu útliti innanhúss og á sama tíma bættum loftgæðum. Það er einnig mjög einfalt að gera breytingar á húsum sem byggð eru úr CLT einingum, hverjum vegg fylgir framleiðsluteikning.

Hverjir eru helstu ókostir við að byggja úr CLT einingum?

Megin vandamálið við CLT einingar er að þær eru ekki framleiddar á Íslandi. Það þarf því að flytja CLT einingar inn erlendis frá til Íslands. Flestir framleiðendur eru í Austurríki og nærliggjandi löndum og einhverjir við Eystrasaltið. Þetta hefur í för með sér að taka þarf tillit til flutningsstærða við hönnun á CLT einingum.

Einn fullur gámur eða trukkur af CLT einingum dugar til að flytja einingar fyrir stök minni hús, eða allt að 40-50 m³ af CLT einingum. Flestir framleiðendur selja ekki beint til einstaklinga eða fyrirtækja og því þarf í mörgum tilfellum að fara í gegnum innlenda umboðsmenn eða milliliði til að kaupa CLT einingar. BK Hönnun verslar milliliðalaust við tvo framleiðendur og gefst húsbyggjendum að nýta sér þá þjónustu, óháð því hvort við sjáum um aðalhönnum eða ekki.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar unnið er með verksmiðjuframleidda húshluta þarf að hafa sérstaklega í huga að aðgengi á verkstað sé tryggt. Því þarf að vera nægt aðgengi fyrir vagna með CLT einingum og tryggt að krani geti athafnað sig þannig að hægt sé að reisa húsið á hagkvæman hátt. Þegar uppsetning CLT eininga er lokið þarf að einangra húsið að utan og ganga frá utanhúss klæðningum.

Hvað kostar að byggja hús úr CLT einingum?

Það er ekki til neitt einfalt svar við þessari spurningu enda margir þættir sem hafa áhrif. Byggingakostnaður ákvarðast af miklu leiti af hönnun, húsagerð og uppbyggingu bygginga og er því breytilegur. Flestir söluaðilar gera verðáætlanir ef viðskiptavinir leggja til grunnmynd, útlit og snið teikningar.

Tilboð söluaðila eru mismunandi uppsett, ýmist er magntaka mjög gróf og eingöngu til viðmiðunar eða mjög nákvæm og unnin af reyndum burðarvirkjahönnuðum. Þá bjóða sumir söluaðilar upp á burðarvirkjahönnun með sínum einingum og aðrir bjóða einnig gerð framleiðsluteikninga fyrir verkefmiðjurnar. Flestir bjóða svo þær festingar og þá fylgihluti sem til þarf svo hægt sé að setja einingarnar upp. Þá eru einhverjir söluaðilar sem bjóða uppsetningu.

Greiðslukjör hjá söluaðilum eru mismunandi. Algilt er að söluaðilar á Íslandi tengi tilboð sín við gengi evru. Enda eru CLT einingar ekki framleiddar á Íslandi enn sem komið er og því um innflutta sér framleidda vöru að ræða. Algengt er að söluaðilar fari fram á innborgun sem getur samsvarað frá 30% af heildar verði og upp í 50% af heildar verði. Þetta er í flestum tilfellum gert til að greiða fyrir framleiðslukostnað eininga og til að takmarka áhættu beggja aðila af gengi íslensku krónunnar. Með þessu er í reynd bara tekin gengisáhætta á eftirstöðvum samninga.

CLT í nútíð og framtíð

Þar til framleiðsla hefst á CLT einingum á Íslandi er ólíklegt að verð muni breytast eða gengi evru muni hafa minna vægi í markaðsverði á CLT einingum. Þó svo að framleiðsla hefjist af einhverju leiti á Íslandi er jafnframt ólíklegt að slík framleiðsla geti keppt af einverju marki við þær risa verksmiðjur sem framleiða CLT einingar á meginlandi Evrópu.

Aukinn áhugi einstaklinga á að byggja sér hús úr CLT einingum er fyrirsjáanlegur og vega þar kostirnir þyngra en ókostirnir. Þegar er búið að byggja talsvert af CLT húsum á Íslandi og er þekking á efnunum og byggingaraðferðinni að verða almennari. Öll stór verkefni hjálpa verulega en síðastliðin misseri hafa leitt af sér mörg stór og smá verkefni úr CLT einingum.

BK Hönnun ehf. er teiknistofa sem sérhæfir sig einnig í innflutningi á byggingarefni. Félagið aðstoðar viðskiptavini með allt sem viðkemur CLT einingum. Við getum hannað hús frá grunni, aðstoðað aðra hönnuði við tæknilegar útfærslur, reiknað verð á CLT einingum og fylgihlutum, séð um gerð framleiðsluteikninga og flutt inn hágæða CLT einingar.

Related Posts